Bjarni Frímann við flygil skáldsins
19/07 2023Bjarni Frímann píanóleikari, hljómsveitastjóri, kórstjóri og tónskáld mun spila á flygil skáldsins í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 23. júlí.
Bjarni Frímann píanóleikari, hljómsveitastjóri, kórstjóri og tónskáld mun spila á flygil skáldsins í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 23. júlí. Bjarni mun blaða í nótnasafni Halldórs Laxness og geta tónleikagestir átt von á fróðleiksmolum og tónlist frá Bach, sem var í miklu uppáhaldi hjá skáldinu. Bjarni hefur áður spilað á Gljúfrasteini bæði einn og með öðru listafólki.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.
