Anna Gréta og Johan Tengholm á Gljúfrasteini
20/06 2023Anna Gréta kemur fram á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 25. júní. Með henni spilar Johan Tengholm á kontrabassa. Á dagskránni verður efni af verðlaunaplötunni Nightjar in the Northern Sky og íslenskar perlur.
Fyrir fyrstu sólóplötu sína Nightjar in the Northern Sky hlaut Anna Gréta Íslensku tónlistarverðlaunin (2021) í tveimur flokkum; plata ársins og lagahöfundur ársins. Hún hefur áður fengið fjölda verðlauna í Svíþjóð, m.a. hin virtu Monica Zetterlund verðlaun, en hún hefur verið búsett þar í landi síðan árið 2014. Hún var einnig valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014. Anna Gréta er píanóleikari, söngkona og lagahöfundur en tónlist hennar hefur verið lýst sem hrífandi blöndu á mörkum jazz og popptónlistar.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.

Anna Gréta hefur gert garðinn frægan með tónlist sinni bæði hérlendis og erlendis.