Vigdís Hafliðadóttir og Baldvin Hlynsson flytja vísur  

Vigdís Hafliðadóttir og Baldvin Hlynsson leiða saman hesta sína á stofutónleikum Gljúfrasteins þann 19. júní næstkomandi. Á efnisskránni eru sænskar vísur með íslenskum og sænskum textum, nýjum og gömlum. 

Vigdís og Baldvin hafa bæði lært í tónlistarskóla í Svíþjóð og þekkja því vel til sænskrar tónlistarhefðar.  

Vigdís Hafliðadóttir lærði vísnasöng í Norræna vísnaskólanum í Kungälv, Svíþjóð auk þess að vera með BA gráðu í heimspeki. Hún hefur síðan þá komið fram með vísnadúettinum Vísur&skvísur auk þess sem hún er söngkona og textahöfundur hljómsveitarinnar FLOTT sem var valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á árinu. 

Baldvin Hlynsson útskrifaðist vorið 2021 frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Stokkhólmi með BA gráðu í djasspíanóleik. Baldvin er einnig lagahöfundur og pródúsent sem hefur komið víða við í íslensku tónlistarsenunni. Auk þess að hafa gefið út djassplötur og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem bjartasta vonin í djass- og blústónlist hefur hann unnið í hljóðveri og á sviði með fjölda tónlistarmanna. Þar má nefna HipsumHaps, Sturla Atlas, ClubDub, Auður, Herra Hnetusmjör, Kristínu Sesselju, Salóme Katrínu, Salsakommúnuna og Draumfari. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 

 

Baldvin og Vigdís flytja vísur á stofutónleikum Gljúfrasteins.