Sunnudaginn 14. júlí fer fram sannkölluð djassveisla í stofunni á Gljúfrasteini. Þá munu þeir Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Andri Ólafsson og Magnús Tryggvason Eliassen leika frumsamda tónlist Hjartar sem innblásin er af þemum, stöðum og persónum í höfundarverki Halldórs Laxness. Auk þess verða á dagskránni nokkrar perlur sem samdar hafa verið við ljóð Laxness og við þekkjum svo vel.
Hjörtur Ingvi Jóhannsson er fæddur árið 1987 og er einna best þekktur sem hljómborðsleikari og lagahöfundur í hljómsveitinni Hjaltalín. Hann er virkur píanóleikari, tónskáld og útsetjari, auk þess að kenna á píanó við Menntaskólann í tónlist. Hjörtur lærði djasspíanóleik í Konservatoríunni í Amsterdam, þaðan sem hann útskrifaðist 2015. Andri og Magnús hafa komið víða við, báðir eru þeir meðlimir í hljómsveitinni Moses Hightower, auk þess sem Magnús er í hljómsveitunum ADHD og Tilbury og Andri er tónlistarstjóri í Frosti í Þjóðleikhúsinu.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2024 er haldin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.