Ungstirnið Benjamín Gísli

23/06 2025

Verið velkomin á spennandi og nýstárlega djasstónleika næsta sunnudag 29. júní kl. 16 á Gljúfrasteini. 

Benjamín Gísli Einarsson spilar eigin tónsmíðar í bland við íslenskar dægurlagaperlur á næstu stofutónleikum sumarsins og lýkur þar með tónleikaferðalagi sínu um landið. Tónleikar á Gljúfrasteini fara fram hvern sunnudag kl. 16 út ágústmánuð. Þeir hafa verið haldnir ár hvert frá opnun safnsins og eru hluti af hefð Halldórs og Auðar Laxness. 

Benjamín er einn af fremstu djasspíanóleikurum landsins og hefur vakið athygli fyrir melódískan stíl, tilfinningaríka spilamennsku og fágaðan tón. Hann er djassmenntaður en tónlist hans nær út fyrir þá skilgreiningu og eru áhrifin blanda af klassískri tónlist, kvikmyndatónlist og spunakenndum köflum í anda Keith Jarrett, á mörkum forms og frelsis, hefða og nýsköpunar. 

Með fram meistaranámi við hinn virta tónlistarháskóla NTNU í Þrándheimi hefur hann sett spor sitt á norsku og íslensku tónlistarsenuna. Hann hefur meðal annars spilað með Bliss Quintet, Bento Box Trio, Tuva Halse Quintet og komið fram á fjölmörgum djasshátíðum og -klúbbum í Evrópu ásamt því að spila fyrir konungsfjölskyldu Noregs. 

Árið 2023 sendi hann ásamt tríói frá sér sína fyrstu plötu, Line Of Thought, sem fékk frábærar viðtökur.  

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á þessa einstöku sumartónleika í stofunni á Gljúfrasteini. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.  

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi.    

Bílastæði við Jónstótt