Söngvaskáldið Svavar Knútur á stofutónleikum
08/07 2025Á tónleikum Svavars Knúts söngvaskálds á Gljúfrasteini verður boðið upp á létta blöndu af frumsömdum lögum söngvaskáldsins og nokkrum lögum við ljóð Halldórs Laxness. Svavar Knútur hefur í tæpa tvo áratugi starfað sem söngvaskáld og nýtt þann vettvang til að kynna íslensk lög og ljóð fyrir Íslendingum sem og alþjóðlegum áheyrendum. Í fyrravor gaf Svavar út lokahluta fimm hljómplatna verkefnis þar sem fjallað er um sorgina í öllum hennar fjölmörgu litbrigðum, en ávallt með vonina sem leiðsegjandi förunaut. Gestir Gljúfrasteins þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af sorglegri dagskrá, því Svavar Knútur hefur fyrir löngu sannað sig sem skemmtilegur sögumaður og ferjar áheyrendur óhulta um þokuhulin sundin.
Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á þessa einstöku sumartónleika í stofunni á Gljúfrasteini, kl. 16 sunnudaginn 13. júlí.
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi.
Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.
Bílastæði eru við Jónstótt.
