Salka Valka var mér opinberun

Í sjötta þætti hlaðvarpsins Með Laxness á heilanum segir Silja Aðalsteinsdóttir ritstjóri meðal annars frá ást sinni á bókinni Sölku Völku sem hún las fyrst þegar hún var unglingur. Salka Valka var Silju opinberun og hún hefur verið hennar eftirlætissaga í rúm sextíu ár. 

Silja Aðalsteinsdóttir

,,Salka er svo dugleg, hún er svo sterk, hún er svo ögrandi. Hún er það sem mann langar að vera” segir Silja í þættinum. Henni þykir með ólíkindum hvað Halldóri tókst að skrifa af miklu innsæi um konur og hún segist halda að í honum hafi verið tvö kyn. ,,Mér fannst nærri því dónalegt hvað hann vissi mikið um konur og hvað hann vissi hvernig stúlka í einrúmi herbergisins síns undir sænginni sinni hugsar og pælir og gerir. ... Mér finnst Halldór vera voða mikil kona, hann skilur konur ótrúlega vel og kvenmyndirnar hans eru alveg ævintýralegar. Þær eru svo skýrar og minnistæðar.”  Hún segist hafa lesið Sölku Völku oftar en nokkra aðra bók ,,ég hef pælt í henni fram og til baka og mér finnst hún bara merkilegri eftir því sem ég les hana oftar og hugsa meira um hana." segir Silja Aðalsteinsdóttir. 
Hún talar um hvernig sé best að hjálpa börnum að lesa bækur Halldórs og hún segir sögur af pabba sínum sem var einlægur aðdáandi bóka Halldórs. ,,Mér fannst stundum að pabbi settist aldrei svo að kvöldverðarborði að hann vitnaði ekki í Sjálfstætt fólk sem var hans eftirlætis bók." Hún segir að pabba sínum hafi ekki fundist neinn höfundur merkilegri en Halldór Laxness. Silja segist því hafa verið alin upp við Halldór Laxness. ,,Hann er partur af persónu manns, ekki bara lífi” segir Silja Aðalsteinsdóttir í sjötta þætti hlaðvarpsins Með Laxness á heilanum. 

Í þáttunum er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru.
Umsjónarkona er Margrét Marteinsdóttir. 
Upphafs- og lokalag þáttanna gerði Sigrún Jónsdóttir, tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtali við Pétur Pétursson, þul á Gljúfrasteini árið 1987.

Hægt er að nálgast þættina á Spotify.

Til baka í viðburði