Rebekka Blöndal flytur lög Ellyjar ásamt Karli Olgeirs

21/07 2025

Verið hjartanlega velkomin á næstu stofutónleika Gljúfrasteins sem haldnir verða næsta sunnudag, 27. júlí kl. 16. 

Rebekka Blöndal og Karl Olgeirsson hafa unnið saman um árabil og geymir efnisskrá þeirra ýmsa djassaða dúetta. Nú ætla þau að fletta í gegnum söngbók Ellyjar Vilhjálmsdóttur og flytja lögin með sínum einstaka hætti. Á efnisskránni verða lög sem allir ættu að þekkja. 

Karl Olgeirsson er flestum vel kunnugur og er þekktur sem píanóleikari, kórstjóri, tónskáld, tónlistarstjóri í hinum ýmsu leiksýningum og orgelleikari í Ástjarnarkirkju. Karl hefur unnið á sviði popp, djass og klassískrar tónlistar og gefið út fjölmargar hljómplötur ásamt því að hljóta Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötuna Mitt bláa hjarta, Grímuverðlaun fyrir leikhústónlist og tilnefningu fyrir kvikmyndatónlist. 

Rebekka Blöndal er ein af fremstu djasssöngkonum landsins og hefur vakið nokkra athygli undanfarin ár í íslensku tónlistarsenunni fyrir djasssöng sinn og tónsmíðar. Rebekka hefur komið víða fram og unnið með mörgu af fremsta tónlistarfólki landsins. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 fyrir söng ársins í flokki djass- og blús tónlistar og hefur tvisvar hlotið tilnefningu til verðlaunanna síðan þá. Rebekka gaf út sína fyrstu plötu árið 2022 og stefnir á útgáfu annarrar með haustinu 2025. 

Við hlökkum til að njóta með ykkur í stofunni á Gljúfrasteini næsta sunnudag, 27. júlí kl. 16. 

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi.

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.

Bílastæði eru við Jónstótt.