Sönglög með nýjum blæ

Magnea Tómasdóttir, Kjartan Guðnason og Kjartan Valdemarsson flytja sönglög með nýjum blæ á stofutónleikum Gljúfrasteins þann 26. júní næstkomandi.

Sönglögin sem flutt verða eru eftir þá Atla Heimi og Jón Ásgeirsson við texta Nóbelskáldsins og Jónasar Hallgrímssonar.
Útsetningin er sannarlega með nýjum blæ, því bakgrunnur Kjartans Valdemarssonar er úr jazzinum og Kjartan Guðnason er slagverksleikari, en þeir útsetja lögin. 

Magnea Tómasdóttir, Kjartan Guðnason og Kjartan Valdemarsson

Magnea Tómasdóttir sópran hóf söngnám hjá Unni Jensdóttur í Tónlistarskóla Kópavogs, og stundaði framhaldsnám í Trinity College of Music í Lundúnum. Á árunum 1997-1999 var Magnea við Óperustúdíóið í Köln og leikárið 1999-2000 var hún fastráðin söngkona við sama hús og söng hin ýmsu óperuhlutverk. Síðustu misseri hefur Magnea helgað kröftum sínum tónlistariðkun og markvissri tónlistarhlustun fólks með heilabilunarsjúkdóma. 

Kjartan Valdemarsson djasspíanisti nam píanóleik við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar áður en hann hélt til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði nám við Berklee College of Music 1985-1989. Kjartan er kennari við Tónlistarskóla FÍH, og starfar einnig hjá Íslenska Dansflokknum og Listdansskóla Íslands. Kjartan hefur starfað með flestum djasstónlistarmönnum landsins auk þess að spila mikið af popptónlist, t.d. með hljómsveitinni Todmobile. Kjartan hefur unnið í leikhúsum og hljóðverum sem upptökustjóri, og jafnframt sem tónskáld og hefur hann samið til dæmis fyrir Áramótaskaupin og Spaugstofuna. 

Kjartan Guðnason hóf tónlistarnám 12 ára gamall í Tónlistarskóla Seltjarnarness þaðan sem leiðin lá í Tónlistarskóla F.Í.H. Kjartan stundaði framhaldsnám í slagverksleik við Conservatorium van Amsterdam í Hollandi. Síðustu áratugi hefur Kjartan leikið reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar og Caput. Hann hefur spilað í leiksýningum Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins undanfarin 25 ár. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.  
 
Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.   

Til baka í viðburði