Laxnessganga á afmæli skáldsins

Í tengslum við bókmennta- og heilsuátakið #Laxness120 er boðið upp á göngu um Mosfellsdal á fæðingardegi Halldórs Laxness, 23. apríl. 

Safnast verður saman við Mosfellskirkju kl. 10 og þaðan verður gengið að Gljúfrasteini, með viðkomu á völdum stöðum. Bjarki Bjarnason rithöfundur og leiðsögumaður mun leiða gönguna. Göngufólk getur átt von á að heyra lesin stutt brot úr verkum Halldórs Laxness og hlýða á fróðleiksmola um uppvaxtarár skádsins í dalnum. Gert er ráð fyrir að gangan muni taka um tvo tíma og enda á Gljúfrasteini þar sem sungið verður í hlaðinu og gefst göngufólki færi á að skoða sýningu um Sölku Völku í móttökunni á safninu. 

Frítt er í gönguna og öll hjartanlega velkomin. 

Skáldið í gönguferð við Gljúfrastein.

Gangan er samstarfsverkefni Gljúfrasteins  og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Bókmenntaborgin leggur þessu skemmtilega átaki einnig lið með öflugu kynningarstarfi. 

Í fyrra höfðu íslenskukennarar við nokkra erlenda háskóla frumkvæði að bókmennta– og heilsuátakinu Laxness119. Nemendur voru þá hvattir til að taka þátt með því að lesa og ekki síður að stunda hreyfingu frá 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs Laxness, til 23. apríl, sem er afmælisdagur skáldsins. Íslenskukennararnir ákváðu að endurtaka átakið í ár og vildu hvetja almenning til þátttöku í Laxness120 með því að lesa eða hlusta á verk skáldsins og ganga, skokka, hlaupa eða hjóla. 

Frá því að átakið hófst hefur verið hægt að fylgjast með áhugasömum þátttakendum sem hafa deilt myndum og færslum á Facebook, Instagram eða Twitter og nota myllumerkið #laxness120. 

Til baka í viðburði