Jónas & Heine
11/08 2025Sunnudaginn 17. ágúst kl. 16 flytja Kristín Einarsdóttir Mäntylä sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari lög við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Heinrich Heine á Gljúfrasteini.
Má þar m.a. heyra sönglög eftir Atla Heimi Sveinsson, Clöru og Robert Schumann, Anton Rubinstein, Grieg og Mendelssohn. Lögin verða flutt við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Heinrich Heine sem og við þýðingar Jónasar á ljóðum Heine. Tónleikarnir verða með fræðsluívafi og munu þær fjalla um ljóð Jónasar og áhrif Heine á skáldskap hans.
Kristín og Eva Þyri hafa starfað saman um nokkurra ára bil og haldið fjölda ljóðatónleika saman. Nú í ágúst flytja þær óperuna Mannsröddina („La voix humaine“) eftir Poulenc á tónlistarhátíðinni Seiglu í Hörpu.
Verið hjartanlega velkomin á spennandi ljóðatónleika á Gljúfrasteini næsta sunnudag.
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu safnsins á tónleikadegi.
Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.
Bílastæði eru við Jónstótt.