Íslensk sönglög á sumardegi

Sólborg Valdimarsdóttir píanisti og Júlía Traustadóttir sópran flytja íslensk sönglög í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 24. júlí. Lögin eru eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Halldórs Laxness úr Sjálfstæðu fólki og lög úr Heimskringlu eftir Tryggva M. Baldvinsson við ljóð Þórarins Eldjárns.

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.

Sólborg Valdimarsdóttir, píanisti og Júlía Traustadóttir, sópran.

Júlía Traustadóttir hóf nám í fiðluleik fimm ára gömul við Suzuki tónlistarkólann í Reykjavík hjá Lilju Hjaltadóttur. Í lok árs 2006 hlaut Júlía inngöngu í Royal College of Music í Lundúnum, þar sem hún hóf söngnám haustið 2007 undir handleiðslu Jennifer Smith. Þaðan útskrifaðist hún með B.Mus. (hons.) í sönglist sumarið 2011. Á námsárunum í London sótti Júlía masterclass hjá Patricia Rozario, Roger Vignoles, Stephen Varcoe og Sally Burgess. Hún tók þátt í margvíslegum tónleikum og verkefnum innan og utan skólans. Einnig kom hún fram sem einsöngvari í Cambridge, Bath og í útvarpsþætti á BBC Radio 3. Júlía lauk meistaranámi í söng- og tónlistarkennslu frá Listaháskóla Íslands vorið 2018. 
 

Sólborg Valdimarsdóttir hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi frá því hún lauk framhaldsnámi árið 2011. Auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum eins og Pearls of Icelandic Songs í Hörpu, Tónlistarhátíð Unga fólksins, Óperudögum og með Caput hópnum, hefur hún annast skipulagningu fjölda tónleika og komið fram heima og heiman. Helsta áhersla Sólborgar hefur verið á kammermúsík, einkum meðleik með söngvurum sem og flutning tónlistar fyrir tvo flygla, þar sem hún skipar dúó með Laufeyju Sigrúnu Haraldsdóttur píanóleikara. Sólborg lauk B.Mus. gráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 undir handleiðslu Peters Máté og í kjölfarið mastersprófi frá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum undir handleiðslu Prof. Anne Øland og Thomas Tronhjem. Á námsárunum komst Sólborg í undanúrslit í háskólaflokki EPTA píanókeppninnar og tók jafnframt þátt í masterklössum hérlendis og erlendis hjá Irina Osipova, Murray McLachlan og Colin Stone, svo einhverjir séu nefndir. 

 

Til baka í viðburði