Í stundarheimi

28/07 2025

Nú er verslunarmannahelgin á næsta leiti og kjörið að staldra við á Þingvallarveginum og líta inn í friðsælu stofuna á Gljúfrasteini. Sunnudaginn 3. ágúst kl.16 leikur Snorri Sigfús Birgisson á flygil skáldsins en tónleikarnir eru hluti af árlegum stofutónleikum Gljúfrasteins á sumrin.  

Snorri flytur þjóðlagaútsetningar og frumsamda tónlist, þar á meðal verkið Netlufiðrildið sem samið var á þessu ári og er nú frumflutt. Síðast á efnisskrá tónleikanna verður tónverkið Í stundarheimi, sem Snorri samdi til minningar um Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag stofutónleika á Gljúfrasteini.  

Snorri Sigfús Birgisson er tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Hann nam píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman tónlistarskólann og tónsmíðar í Ósló og Amsterdam hjá Finn Mortensen, Lasse Thoresen og Ton de Leeuw. Á ferlinum hefur hann samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Snorri hefur lengi verið meðlimur í samtímatónlistarhópnum CAPUT, verið virkur í tónlistarlífi Reykjavíkur frá árinu 1980 og kennt tónlist í yfir 40 ár. 

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi, þann 03. ágúst. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 

Bílastæði eru við Jónstótt

Verið velkomin á ljóðræna tónleika um verslunarmannahelgina í stofu nóbelsskáldsins.