Halldór Laxness gaf okkur leyfi til að gráta

Í þriðja þætti hlaðvarpsseríunnar Með Laxness á heilanum talar skáldkonan Elísabet Kristín Jökulsdóttir um ást sína á Halldóri Laxness ,,hann var meistarinn minn, hann var kennarinn minn, hann kenndi mér bara með því að ég las bækurnar hans, hann var aldrei með prik í skólastofu” segir Elísabet sem nú stendur á tímamótum. Hún er nýflutt úr gamla vesturbænum í Reykjavík þar sem hún bjó í sama húsinu í 30 ár og hefur komið sér fyrir í fallegu húsi í Hveragerði ,,hér eru gufur og gróðurhús og gott fólk,” segir Elísabet, já og 11 þúsund jólastjörnur.  
 

Elísabet var 14 ára gömul þegar hún las öll verk Halldórs Laxness ,,þá byrjaði kennslan fyrir alvöru”, segir hún og bætir við að hún sé samofin Halldóri Laxness. Hún, eins og hann, sé alltaf að skrifa um ástina og um konu sem er veik á einhvern hátt en sé samt ofsalega sterk eins og Ásta Sóllilja ,,kannski er ég alltaf að skrifa um Ástu Sóllilju”, segir hún og bætir við að þegar fólk lesi Sjálfstætt fólk verði það ekki samt á eftir. 

Hún segir að Halldór sé ástarsöguhöfundur því allar sögurnar hans hverfist um ástina, höfuðskepnuna, villidýrið sem ástin sé en að hann dulbúi hana og líka erótíkina.
Elísabet hóf fyrir mörgum árum að rannsaka sérstaklega erótíkina í verkum Halldórs Laxness sem hún segir að enginn hafi þá verið búinn að koma auga á
,,það var eins og ég væri að uppgötva þyngdarlögmálið þegar ég benti á að allt væri löðrandi í erótík í sögum Halldórs.” segir hún. 
Elísabet hefur líka skoðað tárin í sögunum og segir að Halldór Laxness sé búinn að gefa okkur leyfi til að gráta og að við þurfum ekki meira leyfi en það,
,,allar persónurnar hans gráta og sérstaklega í Sjálfstæðu fólki, þar gráta allir, dýrin gráta, það grætur eiginlega allt.”

Elísabet talar líka um drauminn um nóbelsverðlaunin en hún hefur um árabil átt nóbelsverðlaunakjól sem hún ætlar að klæðast þegar hún tekur á móti verðlaununum í Stokkhólmi ,,ég er búin að undirbúa mig ... ég vil vinna nóbelinn fyrir allar litlar stelpur í heiminum svo þær geti sagt, Ella Stína vann nóbelinn við getum líka unnið nóbelinn, eins og Halldór Laxness kom og sagði ,,ég vil þakka þjóð minni” þá myndi ég þakka öllum litlu Ellu Stínunum og segja verðlaunin eru ykkar””

Þegar Elísabet hefur talað um, ást, erótík, tár, ellefu þúsund jólastjörnur, geðveiki, töfrahús, Kristnihaldið, Sjálfstætt fólk, Vefarann mikla, nóbelsverðlaunadraum, allar Ellu Stínur heimsins, Ástu Sóllilju og Aprílsólarkulda, nýjustu bókina eftir hana, gerir hún uppgötvun; ,,í öllum bókum Halldórs Laxness yfirgefa menn konur og dætur, það er niðurstaðan, það er mín uppgötvun eftir þetta spjall.” 

Í þáttunum Með Laxness á heilanum er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru. Umsjónarkona er Margrét Marteinsdóttir.  Upphafs- og lokalag þáttanna gerði Sigrún Jónsdóttir, tónskáld en það er tilbrigði við lag sem Halldór Laxness söng við ljóð sitt Maístjörnuna í viðtalið við Pétur Pétursson, þul á Gljúfrasteini árið 1987.

Hægt er að nálgast þættina á Spotify, á heimasíðu safnsins og á Facebooksíðu þess.

Til baka í viðburði