Guðrún Gunnars flytur lög norrænna söngvaskálda

10/06 2025

Verið hjartanlega velkomin á tónleika með einni ástsælustu söngkonu þjóðarinnar, Guðrúnu Gunnarsdóttur. Tónleikarnir verða sunnudaginn 15. júní kl. 16 á Gljúfrasteini og eru hluti af árlegri sumardagskrá þar sem tónlist ómar í stofunni eins og á dögum Laxnesshjónanna.  

Með Guðrúnu verða Gunnar Gunnarsson á píanó og Þorgrímur „Toggi“ Jónsson á kontrabassa. 

Þau munu flytja lög eftir skandinavísk söngvaskáld, þar á meðal norsku systkinin Kari, Ola og Lars Bremnes, hollensk-sænska söngvaskáldið Cornelis Vreesjwiik og hina finnsku Ernu Tauro. Textarnir eru eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson skáld. 

Gunnar Gunnarsson er mikilsvirtur orgelleikari, píanóleikari og kórstjóri, þekktur fyrir nýstárlegar leiðir að kirkjutónlist, djass og kórútsetningum. Hann hefur gefið út fjölmargar hljómplötur, unnið með fremstu tónlistarmönnum landsins og starfar nú sem orgelleikari Fríkirkjunnar í Reykjavík. 

Þorgrímur er kunnur kontrabassaleikari úr djassheiminum sem nam fræði sín hér heima og við Koninklijk Conservatorium í Haag í Hollandi. Hann hefur leikið með ógrynni djasssveita, -tríóa og -kvartetta ásamt því að gefa út eigið efni. 

Guðrúnu þarf vart að kynna en hún hefur átt farsælan feril sem söngkona og fjölmiðlakona í um 40 ár.  Hún hefur víða komið við og sungið inn á fjölmargar plötur með ýmsu listafólki, átt vinsæl lög á mörgum safnplötum og sungið í söngleikjum. Hún hefur gefið út sex sólóplötur og þrjár plötur með Friðriki Ómari Hjörleifssyni, en tvær þeirra seldust í yfir 10.000 eintökum.  

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni.

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi.   

Hjartanlega velkomin á notalega tónleika í stofunni hjá okkur!

Bílastæði við Jónstótt

Ljósmynd: Ásta Kristjánsdóttir