Ævisaga Halldórs Laxness á Storytel

Nú er hægt að hlusta á ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson á Storytel og er það höfundur sem les. Bókin sem er um 800 blaðsíður kom út árið 2004 og hlaut Halldór Guðmundsson Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana í byrjun árs 2005. 

Halldór Laxness - ævisaga eftir Halldór Guðmundsson

Halldór Guðmundsson ræddi við fjölda fólks og leitaði í bókum, skjala- og bréfasöfnum á Íslandi og erlendis, að heimildum og vitnisburði um líf Halldórs Laxness. Í kynningu á bókinni segir að myndin sem höfundur hennar dragi upp af skáldinu sé fræðandi og skemmtileg en umfram allt ögrandi og óvænt. Einnig segir þar að íslensk þjóð hafi frá upphafi látið sig varða gerðir og skrif síns mesta rithöfundar. Í þessari bók fái hún loksins að kynnast manninum sjálfum. 
Halldór Guðmundsson talaði um tímabilið þegar hann var að rita ævisöguna í hlaðvarpsþætti Gljúfrasteins Með Laxness á heilanum. Hægt er að hlusta á þáttinn hér. 

Halldór Laxness - ævisaga eftir Halldór Guðmundsson er til sölu í safnbúð Gljúfrasteins. 

Til baka í viðburði