Á vinalegum nótum – Salóme Katrín og Bjarni Daníel á stofutónleikum

Vinirnir og tónlistarfólkið Salóme Katrín og Bjarni Daníel sameina krafta sína á stofutónleikum Gljúfrasteins þann 12. júní. Efnisskráin er frumsamið efni eftir þau bæði.  

Salóme semur, syngur og leikur á píanó. Hún gaf út sína fyrstu plötu í árslok 2020 og hlaut Kraumsverðlaunin sama ár. Einnig var hún valin nýliði ársins 2020 af Morgunblaðinu og tilnefnd sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum.  

Bjarni Daníel er einn stofnenda listasamlagsins og útgáfufélagsins Post-dreifingar, sem hefur verið einn sterkasti vettvangur grasrótartónlistar á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Sömuleiðis hefur hann starfað með fjölda hljómsveita innan samlagsins sem gítarleikari, söngvari og lagahöfundur – má þar nefna Supersport!, Skoffín, bagdad brothers. Síðan 2018 hafa verkefni á vegum Bjarna hlotið 8 tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, auk 5 tilnefninga til Kraumsverðlauna, og þar af tvisvar unnið til verðlauna.

Leiðir Bjarna og Salóme hafa legið saman í ófá skipti bæði á tónleikum og hljómplötum, núna síðast á plötunni „Tveir dagar“ með hljómsveitinni Supersport! Á þessum tónleikum munu þau spila og syngja ný og gömul lög úr fórum hvort annars ásamt því að segja kannski nokkur orð um vináttu og tónlist.

Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 
 

Salóme Katrín og Bjarni Daníel leika lög úr fórum hvort annars á stofutónleikum Gljúfrasteins.