Vordagskrá á Gljúfrasteini 

25/04 2023

Nú er vorið mætt í allri sinni dýrð í Mosfellsdal. Af því tilefni verður blásið til fjölbreyttrar vordagskrár á Gljúfrasteini þar sem viðburðir verða haldnir á safninu alla laugardaga frá 29. apríl til 27. maí. Dagskránni lýkur með bókmenntagöngu í Reykjavík um slóðir Erlendar í Unuhúsi miðvikudaginn 31. maí, en sýning um hann opnar á Gljúfrasteini í júníbyrjun. Hver viðburður verður auglýstur sérstaklega þegar nær dregur. Hér má sjá vordagskrána í heild: 

 

29. apríl, kl. 14 Birta Fróðadóttir heldur lifandi leiðsögn um hönnun og arkitektúr á Gljúfrasteini.  

6. maí, kl. 14 Pétur Már Ólafsson segir frá því þegar hann lenti óvænt í að vinna við höfundarverk Halldórs Laxness.

13. maí, kl. 14 Dagný Kristjánsdóttir heldur erindi um birtingarmyndir kynferðisofbeldis í nokkrum verkum Halldórs Laxness. 

20. maí, kl. 14 Edda Andrésdóttir fjallar um viðtalsbók sína Auður á Gljúfrasteini um Auði Laxness og lífið á Gljúfrasteini. 

27. maí, kl. 14 Bjarki Bjarnason leiðir göngu í Mosfellsdal á slóðum skáldsins. 

31. maí, kl. 20 Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason leiða bókmenntagöngu í Reykjavík á slóðum Erlendar í Unuhúsi. Gangan er haldin í tengslum við sýningu um Erlend sem opnar á Gljúfrasteini í byrjun júní. 

 

Frítt er á alla viðburðina og við vonumst til að sjá sem flest. Verið velkomin á Gljúfrastein!