Voila! Halldór á fjölunum í London

09/11 2017

Halldór Laxness kom við sögu á leiksviði utan landsteinanna í gær og endurtekur leikinn í kvöld. Skáldinu bregður þannig fyrir í einni af leiksýningum evrópsku leikhúshátíðarinnar Voila! sem hófst í gær og verður haldin hátíðleg í London næstu daga. Sýningin samanstendur af sjö einþáttungum sem hver með sínu lagi bregður ljósi á eitt nafntogað evrópskt skáld á heimili sínu. Halldór er þar í hópi með skáldum eins og Federico Garcia Lorca, Arthur Rimbaud og Salomeja Neris svo einhver þeirra séu nefnd.

Öll skáldin eiga það sameiginlegt að starfrækt eru skáldahús í þeirra nafni víðsvegar um Evrópu. Það er einmitt eitt af markmiðum þeirra sem standa að baki leiksýningunni að vekja athygli á evrópskum skáldahúsum almennt og sögunum sem þau hafa að geyma, en ekki síður að fagna sameiginlegri menningarsögu álfunnar með því að láta einþáttungana hver af öðrum um að draga landfræðilegar línur milli þessara húsa.

Mörg hver af frumlegri leikskáldum héðan og þaðan voru fengin til að semja einþáttung um samlanda sinn og skrifaði Sigurbjörg Þrastardóttir verkið um Halldór.

Um sýninguna

Viðburðurinn á Facebook