Velkomin á Gljúfrastein

11/05 2021

Frá og með þriðjudeginum 11. maí er safnið á Gljúfrasteini opið alla daga vikunnar frá 10.00 - 17.00.
Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið en safnið var opnað almenningi árið 2004. 

Gestir eru vinsamlegast beðnir um að virða fjarlægðarmörk þegar komið er inn á safnið. 

Garðurinn umhverfis húsið er einnig opinn gestum og gangandi og í nágrenninu eru margar fallegar gönguleiðir.  Meðal annars hin svokallaða ,,skáldaleið" sem liggur frá Gljúfrasteini framhjá Laxnesi og að Guddulaug, sem Halldór Laxness lýsti sem himneskum heilsubrunni í bókinni  Í túninu heima:
,,Til útnorðurs í túnjaðri Laxnestúngu er uppsprettulind umlukt hárri grasbrekku á þrjár hliðar; þar var vatnsból þess fátæka fólks sem búið hafði í Laxnestúngu. Eingin konúngshöll hefur haft þvílíkt vatnsból." skrifar Halldór í endurminningarsögunni
Í túninu heima: ,,Faðir minn trúði á þessa lind. Ég trúi líka á þessa lind."  Frá lindinni sem kölluð er Guddulaug liggur leið að Mosfellskirkju. Í hina áttina frá Gljúfrasteini er hægt að ganga meðfram Köldukvísl að Helgufossi og að eyðibýlinu Bringum. 

Hér er kort af svæðinu með helstu kennileitum 

https://mos.is/media/PDF/Gongukort_lokautgafa_final.pdf