Veðurfræði Eyfellings

26/02 2015

Endurútgáfa bókaforlagsins Bjarts á Veðufræði Eyfellings – Greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum eftir Þórð Tómasson frá Vallnatúni.

Í safni Gljúfrasteins er að finna bókina Veðurfræði Eyfellings – greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum eftir Þórð Tómasson frá Vallnatúni, sem margir þekkja sem Þórð í Skógum. Bókin kom út árið 1979 en var endurútgefin hjá bókaforlaginu Bjarti í fyrra og hefur notið töluverðra vinsælda. Veðurfræði Eyfellings er tileinkuð foreldrum höfundar og gamla fólkinu í Vallnatúni, þeim sem kenndu honum að tala íslenskt mál og gáfu honum orðaforða.

Í kynningu Bjarts í tilefni endurútgáfu bókarinnar var það nefnt sérstaklega að Halldór Laxness hafi sent Þórði Tómassyni höfundi bókarinnar þakkarbréf og áletraða bók í hrifningu sinni. Þegar litið er yfir fjölbreytt bókasafn Halldórs Laxness og Auðar Sveinsdóttur er áhugi þeirra á hverskyns þjóðlegum fróðleik augljós en sjálfur hafði Halldór lagt sitt af mörkum til þess að varðveita fróðleik um forna starfshætti, hefðir og tungumálið sem var sjálfum rithöfundinum mikilvægt. Þegar Gljúfrasteinn komst í eigu ríkisins og stofnað var til safnsins gaf Auður Sveinsdóttir þá ekkja skáldsins þjóðinni bókasafnið. Bókasafnið er skráð í Gegni og er þýðingarmikill hluti Gljúfrasteins.

Athygli landsmanna hefur beinst að veðrinu undanfarna daga enda hefur það leikið marga grátt. Í því ofsaveðri sem geisað hefur síðan í upphafi góu má hugga sig við eftirfarandi veðurvísu sem kemur fram í Veðurfræði Eyfellings:

„Grimmur skyldi góudagurinn fyrsti, annar og þriðji, fjórði verstur en fimmti bestur, þá mun góa góð verða.“