Svavar Guðnason og Halldór Laxness

07/09 2011

Halldór og Svavar Guðnason fyrir framan Gljúfrastein.

Föstudaginn 24. júní síðastliðinn var opnaður nýr sýningasalur Listasafns Hornafjarðar og þar var opnuð sýning á verkum Svavars Guðnasonar.

Svavar Guðnason var mikill vinur Halldórs Laxness og mörg verk hans prýða veggi Gljúfrasteins. Svavar Guðnason fæddist á Hornafirði 18. nóvember 1909 og fór hann til náms til Reykjavíkur og síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann kynntist konu sinni, Ástu Eiríksdóttur frá Borgafirði eystra.

Svavar og Ásta urðu innlyksa í Kaupmannahöfn á stríðsárunum, en 9. júní 1945 sneru þau aftur til Íslands, farþegar á fyrsta farþegaskipinu sem kom til landsins eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Mikill húsnæðsskortur var í Reykjavík á þessum tíma og eftir heimkomuna bjuggu þau um stundarsakir í sumarhúsi rétt við Gljúfrastein í Mosfellsdal. Í bók sinni Svavar Guðnason (2009) birtir Kristín G. Guðnadóttir hluta úr úr bréfi sem Halldór skrifaði Svavari árið 1948:

„Kærar þakkir fyrir ánægjulegar samverustundir í haust [...] Hér er snjór uppí klof og búinn að vera leingi, en það er ánægjulegt að vera hér úti og maður getur farið inn þegar maður vill. Þú þyrftir að eignast skála hér á nálægum hól, nálægt vegi, og í sambandi við Sogsrafmagn, sem nú er reyndar komið hér í Gljúfrastein. Auður vill endilega koma upp skála handa ykkur hér í nágrenni. Hér kemst alt upp sem menn vilja koma upp, jafnvel þó menn hafi einga penínga, af því íslendíngar eru einhvernveginn í stuðinu, og komast ekki útúrþví hvernig sem reynt er til.“

Hér til vinstri er mynd sem tekin var líklegast þennan mikla snjóavetur af vinunum Halldóri og Svavari. Þeir standa fyrir framan Gljúfrastein, þar sem þeir hafa raðað upp nokkrum verkum Svavars í snjónum. Svavar og Ásta byggðu sér reyndar aldrei hús í Mosfellsdalnum en eignuðust þó sinn eigin sumarbústað í dalnum sem þau nefndu Lækjarnes.

Svavar lést í júní 1988 og eftir andlát hans lagði Ásta mikla áherslu á að æviverk hans yrðu sýndur sá sómi sem hann og þau eiga bæði skilið. Ásta gaf heimasveit Svavars fjöldann allan af verkum og einnig bárust höfðinglegar gjafir úr dánarbúi Svavars og Ástu þegar hún lést í febrúar 2008. Hluti Listasafns Hornafjarðar er tileinkaður Ástu í svonefndri Ástustofu. Salurinn er til húsa í gömlu slökkvistöðinni á Hornafirði. Sýningar verða á verkum Svavars á sumrin en yfir vetrartímann verður fjölbreytt dagskrá með verkum innlendra og erlendra listamanna.

Hér má sjá myndir frá opnun Listasafns Hornafjarðar nú í sumar og hér er krækja í Menningarmiðstöð Hornafjarðar.