Stofutónleikaröð sumarsins lokið

29/08 2012

Hrönn Þráinsdóttir og Ari Þór Vilhjálmsson á tónleikum 15. júlí 2012

Það var hörkustemmning síðasta sunnudag þegar kammerpoppsveitin Melchior sló botninn í tónleikaröð Gljúfrasteins þetta sumarið.

Frá sumrinu 2006 hafa stofutónleikar verið fastur liður á Gljúfrasteini og þekktir sem óþekktir tónlistarmenn komið fram við góðar undirtektir tónleikagesta. Anna Guðný Guðmundsdóttir var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins eins og hún hefur verið frá upphafi en í ár voru tónleikarnir þrettán. Eins og alltaf var dagskráin mjög fjölbreytt. Góð aðsókn hefur verið á stofutónleikana frá upphafi enda einstakt að hlýða á ljúfa tóna í stofu skáldsins.

Hinum fjölmörgu tónlistarmönnum eru færðar þakkir fyrir þeirra framlag og eins gestum sem lögðu leið sína á stofutónleikaröð Gljúfrasteins sumarið 2012. Frá 1. september verður safnið opið frá 10-17 alla daga nema mánudaga.