Sönglög við ljóð Nóbelskálda

05/08 2015

Guðrún Ingimarsdóttir söngkona og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanisti flytja ýmis sönglög við ljóð Nóbelskálda á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 9.ágúst. Á efniskránni er tónlist eftir Samuel Barber, Gabriel Fauré, Karol Szymanowski, Atla Heimi Sveinsson og Jón Ásgeirsson við ljóð og texta Nóbelskálda á borð við Halldór Kiljan Laxness, Rabindranath Tagore og Sully Prudhomme. Frumflutt verður þýðing Njarðar P. Njarðvík á Haiku eftir Tomas Trandströmer við lag Atla Heimi Sveinsson.

Guðrún Ingimarsdóttir stundaði söngnám í Reykjavík, London og Stuttgart. Guðrún hefur sótt söngnámskeið hjá Robin Bowman, Janet Perry og Elly Ameling. Hún hefur starfað sem söngkona í Þýskalandi, Íslandi og á meginlandi Evrópu og einnig komið fram á fjölda tónleika víða um Evrópu, Bandaríkin og Kanada. Guðrún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn, til að mynda þegar hún vann til verðlauna í alþjóðlegu Erika Köth söngkeppninni í Þýskalandi árið 1996.

Anna Guðný Guðmundsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Guildhall School of Music í Lundúnum. Anna er fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands, píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur og við Tónlistarskólann í Reykjavík Hún hefur reglulega komið fram á Listahátíð í Reykjavík; í tónleikaröð Salarins í Kópavogi; Reykholtshátíð; Reykjavík Midsummer Music; Sönghátíðinni á Kirkjubæjarklaustri og víðar. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2008.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Stofutónleikar Gljúfrasteins verða aftur haldnir næsta sunnudag, 16.ágúst, kl. 16 en þá mun Kristjana Arngrímsdóttir söngkona koma fram.

Dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni