Skotthúfa Auðar í aðalhlutverki í prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins

01/02 2021

Skotthúfa Auðar Sveinsdóttur en fyrir hana hlaut Auður viðurkenningu í hekl- og prjónasamkeppni Álafoss árið 1970.

Skotthúfa sem Auður Laxness hannaði verður í aðalhlutverki í prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins miðvikudaginn 4. febrúar og fimmtudaginn 4. mars. Viðburðunum verður streymt á Facebooksíðu Heimilisiðnaðafélagsins. Umsjón hafa Guðný María Höskuldsdóttir og Þórdís Halla Sigmarsdóttir.
Á fyrra prjónakvöldinu, næstkomandi miðvikudag, verður farið yfir sögu skotthúfu Auðar, hvernig hún var upphaflega hjá henni og hvernig hún hefur breyst í áranna rás og uppskriftin Auðar birt.  
Hér er tengill á viðburðinn sem verður 4. febrúar.

Seinna kvöldið sem haldið verður mánuði síðar verður frágangur á húfunni skoðaður, kennt hvernig gera á skúf og mismunandi gerðir af skúfhólkum kynntar. Þá á að kenna hvernig húfa og skúfur eru sett saman.  
Hér er tengill á viðburðinn sem verður 4. mars

Auður hlaut viðurkenningu fyrir skotthúfuna í samkeppni Álafoss árið 1970. Hún var annáluð hannyrðakona og ýmis handverk hennar prýða safnið á Gljúfrasteini. Auður starfaði um skeið með Heimilisiðnaðarfélaginu og sat meðal annars í ritnefnd ársrits félagsins; Hugur og hönd. Hún tengdist Heimiliðsiðnaðarfélaginu því sterkum böndum.
Viðburður Heimilisiðnaðarfélagsins er í samstarfi við Gljúfrastein og hefst klukkan 20:00 bæði kvöldin.