Seiðandi tónar úr flyglinum á sunnudaginn

14/08 2012

Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari

Næstkomandi sunndag, þann 19. ágúst mun Arnhildur Valgarðsdóttir töfra fram seiðandi tóna úr flyglinum á Gljúfrasteini. Hún mun leika verk eftir hinn tékkneska Leoš Janáček en hann samdi mestmegnis klassíska tónlist sem var undir áhrifum frá þjóðlagatónlist Austur-Evrópu. Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 að venju og aðgangseyrir er 1.000 krónur. Tónleikarnir eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir.

Sjö ára hóf Arnhildur píanónám við Tónlistarskólann í Kópavogi en tveimur árum síðar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þaðan lauk hún 8. stigi og starfaði um skeið við píanóleik, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá lá leiðin til Royal Scottish Academy of Music and Drama en þaðan útskrifaðist Arnhildur árið 1995 með BA-gráðu og CPGS-diplómu í píanóleik með söng sem aukagrein. Arnhildur er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við hina ýmsu tónlistarmenn. Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum innanlands og utan. Arnhildur lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og er starfandi organisti og kórstjóri við Lágafellssókn í Mosfellsbæ. Hún stjórnar einnig tveimur öðrum kórum og kennir á píanó við Listaskóla Mosfellsbæjar. Arnhildur hefur upptökur í haust á hljómdiski með verkum Leoš Janáček.

Það verður svo kammerpoppsveitin Melchior sem slær botninn í stofutónleikaröð sumarsins sunnudaginn 26. ágúst.