Salka Valka - Námskeið, upplestur og tvö erindi 

27/09 2022

Salka Valka kom út í tveimur bindum á árunum 1931–1932. 

Nú er haustið gengið í garð á Gljúfrasteini í allri sinni litadýrð og eins og ævinlega verður ýmislegt um að vera á safninu á næstunni. Salka Valka heldur áfram að vera í öndvegi en í október fara fram þrír viðburðir í tengslum við hana: Upplestur í samstarfi við Forlagið, námskeið á vegum Endurmenntunar og erindi frá Hauki Ingvarssyni og Jennu Sciuto. 

 

Upplestur í tilefni hljóðbókarútgáfu (2. október) 

Á dögunum kom Salka Valka út á hljóðbók hjá streymisveitunni Storytel. Til að fagna útgáfunni mun leikkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir lesa valda kafla úr verkinu á Gljúfrasteini sunnudaginn 2. október kl. 15. Upplesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. 

 

Námskeið: Salka Valka – níræð og síung (3.–8. október) 

Námskeiðið Salka Valka – níræð og síung verður haldið í Endurmenntun í byrjun október. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Gljúfrastein og mun síðasti tíminn fara fram á safninu þann 8. október. Halldór Guðmundsson hefur umsjón með námskeiðinu og fær til sín góða gesti. Skráning stendur yfir á vef Endurmenntunar og enn eru nokkur pláss laus. 

 

Tvö erindi: Plássið, ástarþríhyrningar og bandarískar bókmenntir (9. október)   

Haukur Ingvarsson og Jenna Sciuto munu halda erindi um Sölku Völku í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 9. október kl. 15:00. Til umfjöllunar verður m.a. plássið og samskipti kynjanna auk þess sem Salka Valka verður sett í samhengi við bandarískar bókmenntir. Haukur mun fjalla um „Plássið hennar Sölku og tengja við smábæjarbyltinguna í bandarískum bókmenntum“. Erindi  Jennu Sciuto verður flutt á ensku og ber yfirskriftina „Gender Dynamics and Love Triangles in Halldór Laxness’s Salka Valka and William Faulkner’s Sanctuary“. Jón Karl Helgason stýrir umræðum að loknum erindum.

Fyrirlesturinn er haldin í samstarfi Gljúfrasteins, The Nordic Faulkner Studies Network og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands.
Frítt er inn á viðburðinn.