Safnadagurinn haldinn hátíðlegur á Gljúfrasteini

07/05 2015

Halldór Laxness á gönguferð í Mosfellsdalnum.

Í tilefni íslenska safnadagsins sunnudaginn 17. maí nk. verður boðið upp á göngu frá Gljúfrasteini – húsi skáldsins að Mosfellskirkju í Mosfellsdal.

Gangan hefst við Gljúfrastein kl. 13:00 og mun Bjarki Bjarnason leiða gönguna, sem lýkur í Mosfellskirkju um kl. 15:00 eða þegar dagskrá sem þar mun fara fram er lokið.

Um tæplega klukkustundarlanga göngu er að ræða. Verður m.a. gengið að Guddulaug, en um hana skrifaði Halldór eftirminnilega í verkinu Í túninu heima (útg. 1975). Í Mosfellskirkju, sem er í aðalhlutverki í Innansveitarkroniku (útg. 1970), mun Bjarki rekja sögu kirkjunnar og að lokum gefst þátttakendum færi á að sjá sögu Halldórs lifna við þegar félagar í Leikfélagi Mosfellssveitar flytja vel valdar senur úr verkinu. Dagskráin í kirkjunni sem hefst að göngu lokinni eða um kl. 14:00 er öllum opin.

Þennan dag verður safnið að Gljúfrasteini opið frá kl. 10:00-16:00 og aðgangur ókeypis.

Nánari upplýsingar um íslenska safnadaginn má nálgast á heimasíðu Félags íslenskra safna og safnmanna

Áhugasömum er bent á að nálgast má Innansveitarkroniku á Innansveitarkronikuvefnum auk upplýsinga um gönguleiðir í dalnum og sögusviðið í kringum kirkjuna að Mosfelli.