Rapp og riddarar á stofutónleikum sunnudaginn 8. júní

03/06 2014

Blásarakvintett Reykjavíkur. Kvintettinn skipa þau Hallfríður Ólafsdóttir flauta, Daði Kolbeinsson óbó, Einar Jóhannesson klarínetta, Jósef Ognibene horn og Darri Mikaelsson fagott.

Blásarakvintett Reykjavíkur flytur verk eftir Darius Milhaud, Atla Heimi Sveinsson og Ferenc Farkas sunnudaginn 8. júní. Kvintettinn skipa þau Hallfríður Ólafsdóttir flauta, Daði Kolbeinsson óbó, Einar Jóhannesson klarínetta, Jósef Ognibene horn og Darri Mikaelsson fagott.

Blásarakvintett Reykjavíkur var stofnaður 1981. Fullyrða má, að hann sé einn virtasti kammerhópur Íslands og hefur kvintettinn borið hróður íslenskrar tónmenningar um heim allan. Hópurinn hefur haldið tónleika um gervalla Evrópu, Bandaríkin, Asíu og Ástralíu þar sem hann hefur m.a. leikið í Carnegie Hall í New York, Wigmore Hall í London og Óperuhúsinu í Sydney. Mörg tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir hann og hin virtu hljómplötufyrirtæki Chandos og BIS hafa gefið út leik kvintettsins og dreift um allan heim. Blásarakvintett Reykjavíkur var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 1995 og var opinber kammerhópur Reykjavíkurborgar 1998 – 2000.

Á efnisskrá tónleikanna eru La cheminée du roi René eftir Darius Milhaud, Íslenskt rapp - Rondo fantastico eftir Atla Heimi Sveinsson og Fornir ungverskir dansar eftir Ferenc Farkas.

Titill tónleikanna – Rapp og riddarar á Skerplu – vísar til rapps Atla Heimis og kvintetts Dariusar Milhaud, en hann fjallar um miðaldarómantík og riddaramennsku. Annar mánuður í sumri eða Skerpla hófst þann 24. maí og lýkur 23. júní.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Opið er um hvítasunnuhelgina frá 9:00-17:00 eins og alla daga yfir sumarið.