Ragnheiður Gröndal á kvenréttindadaginn

15/06 2011

Ragnheiður Gröndal, söngur

Ragnheiður Gröndal mun koma fram á stofutónleikum á Gljúfrasteini næstkomandi sunnudag 19. júní kl. 16. Efnisskrá Ragnheiðar samanstendur af eigin lögum og ljóðum, nýjum og eldri lögum við ljóð Kristínar Jónsdóttur og Halldórs Laxness, þjóðlögum við ljóð Skáld-Rósu og Maríu Bjarnadóttur og lögum eftir samtímatónskáld eins og Ólöfu Arnalds og Megas.

Aðgangseyrir er 1000 kr og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

 

Ragnheiður Gröndal hefur fengist við tónlist frá unga aldri. Hún hóf söngferil sinn í Skólakór Garðabæjar undir stjórn Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur en lærði einnig á píanó frá 6 ára aldri, fyrst í Tónlistarskóla Garðabæjar en síðar í Tónlistarskóla FÍH þar sem hún nam jazzpíanóleik og söng. Hún útskrifaðist þaðan með burtfararpróf í jazzsöng vorið 2005. Veturinn 2005-2006 lærði Ragnheiður klassískan píanóleik undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan 7. stigi. Ragnheiður var einnig við nám í The New School for Jazz and Contemporary Music í New York veturinn 2006-2007 og sótti þar einkatíma hjá Theo Bleckmann söngvara og fjöllistamanni.

Ragnheiður hefur gefið út 6 hljómdiska í eigin nafni auk þess að hafa sungið inn á plötur og unnið verkefni í samstarfi við ýmsa tónlistarmenn og hljómsveitir úr ólíkum áttum, m.a. Tómas R. Einarsson, Sigurð Flosason, Jón Ólafsson, Hauk Gröndal, Vokalselskabet Glass, Ske, Jóhann Jóhannsson og The Fancy Toys frá Bretlandi svo einhverjir séu nefndir. Hún hefur hlotið Íslensku Tónlistarverðlaunin 4 sinnum, sem Bjartasta vonin og fyrir flutning sinn á laginu Ást sem valið var Lag ársins árið 2003, sem Söngkona ársins og plata hennar Vetrarljóð var valin Plata ársins í dægurtónlist árið 2004. Auk þess hlaut plata hennar After the Rain tilnefningu til verðlaunanna árið 2005.

Ragnheiður hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sungið með Frostrósum, hitað upp fyrir söngkonuna Katie Melua í Laugardalshöll, komið fram á tónlistarhátíðum einsog Copenhagen Jazz Festival, Hróarskeldu, Jazzhátíð Reykjavíkur, Myrkum Músíkdögum og komið fram víða um heim sem sólisti og með hljómsveitum.

Ragnheiður hefur fengist við marga ólíka tónlistarstíla- og stefnur og verkefni sem hún hefur tekið að sér spanna allt frá jazzi og þjóðlagatónlist yfir í vinsældapopp og dægurtónlist. Auk þess semur hún sína eigin músík sem er einhvers konar bræðingur af alls kyns tónlistarlegum áhrifum. Hún vinnur um þessar mundir að nýju efni sem áætlað er að komi út síðar á árinu.

Hljómsveit Ragnheiðar The Icelandic Folk Ensemble hitaði upp fyrir Jethro Tull í Háskólabíói haustið 2009 og lék forsprakki hennar Ian Anderson að því tilefni með hljómsveitinni í nokkrum lögum. The Icelandic Folk Ensemble kom auk þess nýverið fram á WOMEX sem er ein öflugasta heimstónlistarráðstefna í Evrópu í dag  og á virtri þjóðlagatónlistarhátíð í Kassel í Þýskalandi 2010. Í sumar mun sveitin leika á norrænni þjóðlagahátíð í Normandy í Frakkland og samhliða því á Jazzhátíð Reykjavíkur.