Píanóveisla á Gljúfrasteini

20/07 2010

Davíð Þór Jónsson, píanó

Sunnudaginn 25. júlí næstkomandi klukkan 16 mun Davíð Þór Jónsson flytja píanóverk, bæði frumsamin og eftir helstu tónskáld síðustu alda, svo sem Bach, Schumann og Chopin.

Davíð Þór er fæddur á Seyðisfirði árið 1978. Hann útskrifaðist frá Tónlistarskóla F.Í.H. árið 2001 með láði og árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask. Auk þess að vera afkastamikill sem hljóðfæraleikari á margvísleg hljóðfæri, útsetjari og upptökumaður fyrir fjölda tónlistamanna á borð við Mugison, Ólöfu Arnalds og Skúla Sverrisson hefur Davíð Þór unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum sem tónskáld, tónlistarmaður og flytjandi. Mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en nýjasti ávöxtur samstarfs þeirra Davíðs Þórs var tónlistar- og myndbandsverkið The End sem var framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum 2009, en Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti, ásamt Ragnari. Davíð Þór hefur spuna og uppfinningasemi í forgangi í tónlistarsköpun sinni, þar sem allt er leyfilegt og hvergi eru svo há grindverk að ekki sé hægt að skjótast örlítið útfyrir og sækja hið óræða.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru alla sunnudaga kl. 16.00 í sumar. Aðgangseyrir er 1.000 krónur.

Við viljum vekja athygli á að Mos-Bus ekur ókeypis um Mosfellsbæ í sumar. Ferðamannastrætóinn keyrir um götur bæjarins alla daga vikunnar og stoppar á öllum helstu áfangastöðum hans. Gljúfrasteinn er að sjálfsögðu einn af þeim stöðum. Með þessu er verið að bjóða þægilegan og einfaldan möguleika fyrir Íslendinga jafnt og útlendinga til þess að upplifa allt það helsta sem bærinn hefur upp á að bjóða.