Patrick Modiano er handhafi Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum í ár

09/10 2014

Pat­rick Modiano, Nóbelsverðlaunahafi árið 2014. Mynd tekin af vef Francetoday.com

Til­kynnt var í Stokk­hólmi í morgun að handhafi Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum árið 2014 yrði franski rit­höf­und­ur­inn Pat­rick Modiano. Hann fædd­ist árið 1945 í Par­ís, þar sem fyrsta bók hans kom út árið 1968. Hann hef­ur síðan sent frá sér fjölda skáld­sagna sem þýddar hafa verið á mörgum tungumálum.

Halldór Laxness er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur þessi eftirsóttu verðlaun, þó að fleiri Íslendingar hafi verið tilnefndir í gegnum tíðina. Halldór var fyrst tilnefndur árið 1948 og var eftir það tilnefndur á hverju ári þar til hann hlaut verðlaunin árið 1955. Á næsta ári verða 60 ár liðin frá því að Halldór Laxness hlaut verðlaunin.

Bókmenntaverðlaun Nóbels voru fyrst afhent árið 1901 samkvæmt leiðbeiningum sem sænski uppfinningamaðurinn Alfred Nobel lét eftir sig í erfðaskrá sinni en hann lést árið 1896. Þar kvað á um að hin gífurlegu auðæfi sem hann skildi eftir sig ætti að nota til þess að setja á stofn fimm verðlaun. Þessi verðlaun skyldu svo veitt þeim einstaklingum sem skarað hefðu fram úr á sínu sviði í eðlis-, efna-, læknisfræði, bókmenntum og friðarbaráttu. Árið 1969 var hagfræðiverðlaunum sænska seðlabankans í minningu Alfreds Nobel bætt við.

Á vefsíðu Nóbelsverðlaunanna má sjá lista yfir fyrri Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum.