Nóbelsverðlaunin 1955

27/10 2015

Halldór Laxness opnar heillaóskaskeyti sem honum bárust í tilefni af Nóbelsverðlaununum.

Í dag eru 60 ár frá því að Halldóri Laxness var tilkynnt að hann hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels í bókmenntum árið 1955. Í tilkynningunni frá sænsku akademíunni kom fram að verðlaunin væru fyrir litríkan skáldskap sem endurnýjað hefði íslenska frásagnarlist.

Til að minnast þessara tímamóta verður opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni . Sýningin er í samstarfi Gljúfrasteins – húss skáldsins, RÚV og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

Á sýningunni gefur að líta margvísleg skjöl úr skjalasafni Halldórs Laxness sem varðveitt er í Þjóðarbókhlöðunni, muni frá Gljúfrasteini og Nóbelsverðlaunin sjálf sem eru í vörslu Seðlabanka Íslands. Þá hefur RÚV unnið sérstakan vef sem tileinkaður er Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness. Vefurinn verður aðgengilegur á snertiskjá á sýningunni.