Mozart, Schuman og Poulenc á Gljúfrasteini á sunnudaginn

29/02 2012

Mathias Susaas Halvorsen píanóleikari

Mathias Susaas Halvorsen píanóleikari spilar verk eftir Mozart, Schuman og Poulenc á Gljúfrasteini sunnudaginn 4. mars klukkan 16. Aðgangur er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Það er Vinafélag Gljúfrasteins sem stendur fyrir tónleikunum en Mathias er á landinu vegna undirbúningsvinnu fyrir Podium festival sem haldin verður 7.-10. júní 2012 í Selinu á Stokkalæk. Þar munu fjórtán ungir tónlistarmenn frá ýmsum löndum bjóða upp á tónleika.

Podium hugmyndin kemur frá samnefndri hátíð frá Noregi, stofnaðri árið 2008 af Guro Pettersen og Mathias Susaas Halvorsen. Áhersla er lögð á að áhorfendur upplifi tónlist á nýjan og spennandi hátt en til þess verður ýmsum brögðum beitt. Dagskráin kynnir mismunandi sjónarhorn á sögu og tegundir tónlistar. Kynntir verða til leiks tónlistarmenn frá Austurríki, Noregi, Hollandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi auk þeirra íslensku. Helstu styrktaraðilar Podium festivals er Evrópa unga fólksins og Selið á Stokkalæk.

Mathias Susaas Halvorsen fæddist 1988 í Haugesund og stundaði píanónám við Barratt Due Musikkinstitutt í Ósló undir handleiðslu tékkneska prófessorsins Jiri Hlinka. Nú stundar hann nám við Tónlistarháskólann í Leipzig hjá þýska prófessornum Gerald Fauth.

Hann hefur komið fram með mörgum virtum tónlistarmönnum, þar á meðal Gintaras Rinkevicius, Benedict Klöckner og Tine Thing Helseth og á mörgum hátíðum, svo sem Festspillene i Hardanger, København Kammermusikfestival, Festspillene i Bergen sem og fjölmörgum tónleikum í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi.

Árið 2008 stofnaði hann, ásamt flautuleikaranum Guro Pettersen, Podium kammermúsíkhátíð í Haugesund en hann er einnig reglulegur gestur annarra Podium hátíða í Þýskalandi, Póllandi og á Íslandi.

Mathias hlaut þriðju verðlaun sem píanódúóið Duo Arctica, ásamt Joachim Carr í alþjóðlegu Grieg keppninni árið 2008 og hafa þeir síðan komið fram í Þýskalandi, Ísrael og á Íslandi. Vorið 2009 flutti hann fimmta píanókonsert norska tónskáldsins Halfdan Cleve með Litháísku ríkissinfóníuhljómsveitinni.

Efnisskrá tónleikanna er eftirfarandi:

 

Wolfgang Amadeus Mozart

Sónata í b dúr nr. 13, K. 333
Allegro
Andante cantabile
Allegretto grazioso

Francis Poulenc

Promenades
A pied
En auto
A cheval
En bateau
En avion
En autobus
En voiture
En chemin de fer
A bicyclette
En diligence

 

Robert Schuman

Humoreske í b dúr, op. 20
Einfach
Hastig
Einfach und zart
Innig - Sehr lebhaft
Zum Beschluss

Gljúfrasteinn er á facebook. Fylgstu með og fáðu upplýsingar um hvað er að gerast á safninu með því að “líka” við síðuna.