Mið-Ísland með uppistand á Gljúfrasteini

05/05 2010

Dóri DNA, barnabarn skáldsins og einn af fjórum uppistöndurum sem fara með gamanmál á Gljúfrasteini laugardaginn 8. maí 2010

Næsta laugardag klukkan 16 verður rykið dustað af hláturþindum gesta Gljúfrasteins því þá verður uppistandshópurinn Mið-Ísland á ferðinni á heimili skáldsins og mun þar fara með gamanmál. Fram munu koma: Jóhann Alfreð, Ari Eldjárn, Bergur Ebbi og Dóri DNA, en sá síðastnefndi mun koma fram órakaður og með hatt - að hætti ungskálda.

Halldór Laxness átti það til að vera hnyttinn í tilsvörum og fræg er sagan þegar vörubílstjóri varð til þess að skáldið lenti með bílinn sinn úti í skurði. Þegar hann hafði klöngrast út úr bílnum var það fyrsta sem hann sagði við skelfingu lostinn bílstjórann: „var það eitthvað fleira sem ég get gert fyrir yður.”

Aðgangseyrir er 800 krónur og allir velkomnir. 

Uppistandshópurinn Mið-Ísland hefur komið víða við á því rúma ári sem hann hefur verið starfræktur. Auk hefðbundinna uppistandskvölda, sem öll hafa verið svo vinsæl að fullt hefur verið út úr dyrum í hvert sinn, hafa meðlimir komið fram í sjónvarpi og á ýmsum menningarviðburðum. Hópurinn hélt til dæmis vel heppnað uppistand fyrir gesti Listasafns Akureyrar síðasta sumar, auk þess að skemmta fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn undir nafni Vest-Norræna félagsins fyrr í vor.