Málþing helgað Halldóri Laxness á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2019

31/01 2019

Halldór Laxness árið 1919 

Málþing um Halldór Laxness var haldið í Osló í nóvember í fyrra og verður þingið á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík hluti af því. Tilefnið er að í ár eru hundað ár liðin síðan fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness Barn náttúrunnar kom út. 
Hátíðin fer nú í fyrsta sinn fram að vori, hefst 24. apríl og stendur yfir í fjóra daga.  Málþingið um Nóbelsskáldið verður haldið í samstarfi við Gljúfrastein og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

Í ár er þema hátíðarinnar aðlögun og segir í tilkynningu frá Bókmenntahátíð í Reykjavík að þar sé vísað til margs konar aðlögunar svo sem aðlögunar að kvikmynda- eða sjónvarpsþáttaforminu, aðlögunar að breyttum aðstæðum í breyttum heimi, svo sem vegna loftslagsbreytinga, breytinga á tungumálinu og aðlögunar okkar að nýjum heimkynnum. 
Hátíðin fer fram í Norræna húsinu og í Iðnó.

Barn náttúrunnar geymir óm bernskunnar
Aldarafmælis fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness verður víðar minnst en á Bókmenntahátíð í Reykjavík.  Verið að er að undirbúa sýningar á Gljúfrasteini og Landsbókasafni Íslands. Þá hyggst Forlagið endurútgefa Barn náttúrunnar á árinu. 
Halldór Laxness skrifaði Barn náttúrunnar þegar hann var aðeins 16 ára gamall. Bókin kom út í október árið 1919 þegar Halldór var 17 ára . Í formála Halldórs að endurútgáfu sögunnar skrifar hann meðal annars:

,,Nú er ég hef látið tilleiðast að renna augum yfir bókina í fyrsta sinni síðan ég sendi hana frá mér sextán vetra gamall, þá uppgötva ég að þetta muni vera besta bók mín,  og liggja til þess þær orsakir að hún geymir óm bernskunnar. Þetta er kveðja mín til bernskudaganna.“