Ljóðahátíð á Gljúfrasteini

27/01 2011

Stólinn í vinnuherbergi Halldórs fluttu þau Auður með sér að Gljúfrasteini. Í honum sat Halldór gjarnan og margar ljósmyndir voru teknar af honum í stólnum. Í hillunum eru útgáfur af bókum Halldórs, frumútgáfur og þýðingar. Púðann í stólnum gerði Ásdís Sveinsdóttir, systir Auðar.

Ný kynslóð ungskálda stígur á stokk á Gljúfrasteini sunnudaginn 30. janúar næstkomandi, klukkan 16. Þá munu fimm nemendur í ritlist við Háskóla Íslands lesa upp frumsamin ljóð í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangur að þessari ljóðastund er ókeypis.

Núna í vor verður sannkölluð ritlistarveisla á Gljúfrasteini, en fram í maí munu nemendur ritlistarinnar mæta á Gljúfrastein síðasta sunnudag í hverjum mánuði og kynna þau verk sem þeir eru að vinna að. Í ritlist gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Frá því að Gljúfrasteinn var byggður árið 1945 hefur húsið verið miðstöð menningar hér á landi og því er ánægjulegt að samstarf hafi hafist við ritlistardeild HÍ með þessu móti.

Fyrsta námskeiðið í ritlist var haldið við Háskóla Íslands árið 1987 og stóð Njörður P. Njarðvík prófessor og rithöfundur fyrir því. Næstu árin voru kennd stök námskeið í ritlist en árið 2002 var farið að bjóða upp á ritlist sem aukagrein til BA-prófs. Haustið 2008 var hún síðan boðin sem aðalgrein til BA-prófs og var þá Rúnar Helgi Vignisson ráðinn til að sjá um námið.

Þau ungskáld sem lesa upp að þessu sinni eru Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Hekla Helgadóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Bragi Páll Sigurðarson og Hertha Úlfarsdóttir.