Leikhúslög með Ingveldi Ýri og Gerrit Schuil

08/06 2011

Ingveldur Ýr, söngur

Ingveldur Ýr og Gerrit Schuil heimsækja Gljúfrastein hvítasunnudaginn 12. júní kl. 16. Þau munu flytja lög úr leikhúsinu eftir Kurt Weill, Leonard Bernstein, George Gershwin, Atla Heimi Sveinsson og Jón Nordal. Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Ingveldur og Gerrit eru bæði þekkt í íslensku tónlistarlífi fyrir tónleikahald og kennslu. Samstarf þeirra nær aftur til ársins 1998 þegar þau fóru hringferð um landið með leikhústónleika sem vöktu mikla lukku.

 

Ingveldur Ýr hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík 15 ára gömul eftir balletnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins. Átján ára fór hún utan til náms í söng og leiklist við Tónlistarskóla Vínarborgar og lauk mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York 1991. Hún hefur starfað með Íslensku óperunni, Óperunni í Lyon og Bastilluóperunni í Frakklandi. Hún hefur einnig margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ingveldur Ýr hefur fengið fjölda viðurkenninga og styrki fyrir flutning sinn og þátttöku í verkefnum, m.a. frá Reykjavíkurborg, Evrópusambandinu, Félagi íslenskra leikara, 92nd St. Y í New York og Meistersinger söngkeppninni í Graz.

Ingveldur Ýr syngur jafnt óperutónlist sem söngleikja-, kabarett- og dægurlagatónlist. Raddsvið hennar spannar bæði sópran og mezzosópranfagið í óperum. Hún hefur komið fram víða um heim bæði á óperusviði og á tónleikapallinum. Hún gaf nýlega út einsöngsplötuna Portrett með úrvali af lögum frá ferli sínum, við útsetningar Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og hljóðfæraleik Caput  Session Ensemble.

Gerrit Schuil fæddist í Vlaardingen í Hollandi. Aðeins níu ára gamall vann hann til fyrstu verðlauna í keppni 200 ungra tónlistarmanna, og lék hann í hollenska ríkisútvarpinu tveimur árum síðar. Gerrit hóf reglulegt nám við Tónlistarháskólann í Rotterdam árið 1968. Ári síðar kom hann fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Rotterdams í d-moll concerto eftir Brahms.

Gerrit Schuil hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu. Í nokkur ár stjórnaði Gerrit hljómsveitum hollenska útvarpsins sem á þeim tíma voru einnig hljómsveitir hollensku ríkisóperunnar. Hann hefur einnig stjórnað fjölda annarra evrópskra og amerískra hljómsveita bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum.

Eftir tónleikaför til Íslands árið 1992 settist Gerrit hér að og býr nú í Reykjavík. Síðan þá hefur hann verið leiðandi í tónlistarlífi landsins þar sem hann hefur haldið fjölda tónleika, stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur og uppfærslum Íslensku óperunnar. Hann hefur stýrt tónlistarhátíðum og tekið upp geislaplötur með mörgum af bestu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins.