Laxness hátíð í Vilnius

04/12 2013

Halldór Laxness og Antanas Venclova.

Nú stendur yfir Laxnesshátíð í Vilníus í Litháen. Hátíðin er haldin að frumkvæði safns rithöfundarins Antanas Venclova. Hann heimsótti Ísland árið 1961 og ferðaðist víða með Halldóri og Auði Laxness. Eftir heimsóknina gaf hann út ferðabók um heimsóknina sem prýdd er fjölda mynda frá Íslandi.

Dagskrá hátíðarnnar í Vilníus er fjölbreytt og verða meðal annars sýndar tvær kvikmyndir. Annars vegar HKL ( Anti American wins Nobel Prize ) heimildarmynd Halldórs Þorgeirssonar frá 2011 og svo Kristnihald undir Jökli í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur frá 1989.

Í samstarfi við Miðstöð Skandínavískra fræða og háskólann í Vilníus veður málþing þar sem Rasa Baranauskiene  þýðandi mun lesa úr verkum Halldórs Laxness, Justina Juozenaite frá Venclova safninu fjallar um rithöfundana Venclova og Laxness. Guðný Dóra Gestsdóttir safnstjóri Gljúfrasteins fjallar um ævi og verk Laxness og verða umræður sem Ieva Steponavičiūtė Aleksiejūnienė frá Miðstöð skandínavískra fræða stjórnar. Halldór Guðmundsson rithöfundur verður með á fundinum í gegnum Skype.

Mikill áhugi er meðal skipuleggjenda að þýða verk Halldórs Laxness yfir á Litháísku.

Sérstakur heiðursgestur verður ljóðskáldið Tomas Venclova, sonur Antanas.

Heimasíða Venclöva-safnsins í Vilnius