Jón Prímus, Úa og Umbi í hálfa öld.

28/09 2018

Úr kvikmyndinni Kristnihald undir Jökli 

3. október eru 50 ár liðin frá því að Kristnihald undir Jökli kom út. Beðið hafði verið í nokkurri eftirvæntingu eftir nýrri skáldsögu frá Halldóri Laxness því átta ár voru þá liðin frá því að Paradísarheimt kom út.   

Sagan greinir frá umboðsmanni biskups, Umba, sem er sendur undir Jökul til að kanna stöðu mála í söfnuði einum á Snæfellsnesi.  Tilefni fararinnar er að séra Jón Prímus er talinn vera hættur að sinna embættisverkum og hjúskaparstaða hans er óljós.  Umbi á að setja saman skýrslu um þessa ferð sína en það verk verður snúnari eftir því sem á líður. Við sögu koma einnig vopnabraskarinn Godman Sýngman og Úa, konan sem dregur Umba á tálar. Hún er dýrlingur og gleðikona sem hefur verið túlkuð sem hin eilífa kvenmynd og táknmynd lífsins.

Í Morgunblaðinu þennan dag fyrir 50 árum var ítarleg frétt um útkomu bókarinnar þar sem sagði meðal annars:

,,Ragnar Jónsson í Smára, boðaði blaðamenn á sinn fund í gær í tilefni þess, að í dag kemur á markað frá Helgafelli ný bók eftir Halldór Laxness.  Bókin heitir „KRISTNIHALD UNDIR JÖKLI", og er 334 blaðsíður í 45 köflum.“ 

Ragnar í Smára sagðist á fundinum ekki hafa verið eins spenntur að lesa nokkra bók og þessa.
,,Mér finnst þetta æðisgengin bók“ sagði hann og bætti við að í henni væru svör við flestu sem okkur viðkomi og þá kannski sér í lagi hjónabandinu. ,,Þarna kemur fram kannski albezta hjónabandið, þar sem þau eru ekki allt of mikið saman“. 

Nokkrum dögum síðar skrifaði Þráinn Bertelsson um Kristnihald undir Jökli í dagblaðið Vísi sem þá var orðin umtalaðasta bókin á Íslandi. ,,Það athyglisverðasta við þessa bók er, að með henni sýnir Laxness, að hann býr yfir þeirri náðargáfu snillingsins að vera síungur. Hann lætur sér ekki nægja að fylgjast með tímanum, heldur verður hann að vera í broddi fylkingar.“

Og í byrjun árs 1969 birtist í danska blaðinu Politiken grein eftir Erik Sönderholm, fyrrum danskan sendikennara í  Reykjavík.  Þar segir meðal annars: ,, Kristnihald undir Jökli er ekki aðeins bezta íslenzka skáldsagan sem út hefur komið í mörg, mörg ár, heldur er hún nýr og óvæntur hátindur í bókmenntaverki Laxness."

Haldið verður uppá hálfrar aldar útgáfuafmælið í stofunni á Gljúfrasteini miðvikudagskvöldið 3. október kvöld klukkan 20 þegar Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands ræðir um verkið frá sjónarhóli samtímans, hálfri öld síðar.  

„Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni."
(41. kafli. Jón Prímus.)