Joan Jonas á Gljúfrasteini

09.09 2025

Hin heimsþekkta bandaríska myndlistarkona Joan Jonas (f. 1936) heimsótti Gljúfrastein á dögunum og stýrði þar upptökum á nýju vídeólistaverki ásamt Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni. Kristnihald undir Jökli veitti henni innblástur til verksins. Joan hefur áður sótt í verk Halldórs Laxness en vídeóverk hennar Reanimation (2010/2012/2013) er til sýnis í Hafnarhúsi 6.–11. september. 

Tilefni þessarar Íslandsheimsóknar Joan Jonas er þátttaka hennar í viðburði með Ragnari Kjartanssyni þann 11. september kl. 17 í Listasafni Reykjavíkur, en þar munu þau ræða við Markús Þór Andrésson safnstjóra um það hvernig skáldverk Halldórs Laxness hafa veitt þeim innblástur í gerð myndlistarverka. Joan hefur meðal annars sótt í Kristnihald undir Jökli og Ragnar í Heimsljós en verk hans Heimsljós – líf og dauði listamanns (2015) er nú til sýnis í Listasafni Reykjavíkur. Um þessar mundir eru 70 ár liðin frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin og því ríkt tilefni til að efna til viðburða í tengslum við höfundarverk hans. 

Í samtali Joan Jonas og Ragnars Kjartanssonar verður velt upp spurningum um framhaldslíf bókmennta í myndlist: Hvað í verkum Laxness býður upp á slíka umbreytingu? 

Aðgangur er ókeypis en gestir þurfa að skrá sig til að tryggja sér sæti. Einnig er velkomið að standa meðan húsrúm leyfir. Viðburðurinn er hluti af dagskrá sýningarinnar Heimsljós í Hafnarhúsi og liður í viðburðaröð í tengslum við 70 ára afmæli Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness. Samstarfsaðilar eru Gljúfrasteinn, Listasafn Reykjavíkur, Sendiráð Svíþjóðar á Íslandi, Forlagið, RLA og Hugvísindadeild Háskóla Íslands. 
 
Verkefnið hlaut styrk úr safnasjóði.   

Ragnar Kjartansson og Joan Jonas við Gljúfrastein í september 2025.