Jagúarinn útskrifaður úr Borgarholtsskóla

15.06 2025

Jagúarinn er kominn heim að Gljúfrasteini eftir allsherjar yfirhalningu í Borgarholtsskóla undanfarin fjögur ár. Yfir 50 nemendur skólans í bílgreinum hafa unnið við bílinn af miklum metnaði undir dyggri handleiðslu fagkennara og er hann nú orðinn eins og nýr. Jagúarinn er árgerð 1968. Ótal sögur tengjast þessum bíl eins og Óskar Magnússon færði til bókar á einstaklega skemmtilegan hátt í bók sinni Jagúar skáldsins. 

Halldór og Auður Laxness voru mikið smekkfólk á hönnun og þá voru fallegir bílar ekki undanskildir. Laxness hafði sterkar skoðanir á útliti bílsins og vildi fá hann rjómahvítan, alls ekki hvítan, og leiðrétti fólk gjarnan ef því yfirsást þessi blæbrigðamunur. 

Fjölmargir velunnarar hafa komið þessu góða samstarfsverkefni. BL sem lagði til varahluti, vinnu við vél, aðstöðu og þekkingu; Eðalbílar, Poulsen sem lögðu til allt efni svo hægt væri að sprauta bílinn, Bílaklæðning Auðuns Jónssonar, Sigurgeir Þór Sigurðsson smiður gerði upp mælaborðið og Stólpa gáma sem lánuðu gám; auk áhugafólks sem hefur stutt verkefnið með ráð og dáð. Ríkarður Már Ríkarðsson umsjónarmaður Jagúarsins hefur haldið utan um verkefnið fyrir hönd Gljúfrasteins. Hér má sjá umfjöllun Rúv um viðburðinn sem haldinn var til að fagna því að bíllinn væri kominn heim í hlað.


Jagúarinn verður til sýnis á Gljúfrasteini á blíðviðrisdögum í sumar.  
 

Starfsfólk Borgarholtsskóla við Jagúarinn.