Jagúarinn í bæjarferð

18/06 2019

Jagúarinn í bæjarferð 

Hinn frægi Jagúar sem Halldór Laxness átti og er nú í eigu safnsins á Gljúfrasteini vekur jafnan mikla athygli safngesta á sumrin þar sem hann stendur á planinu fyrir framan húsið.  Jagúarinn sem er árgerð 1968 og því 51 árs gamall, fékk bæjarleyfi á dögunum.  Það var Ragnar Már Ríkarðsson, umsjónarmaður Jagúarsins sem sótti hann á Gljúfrastein, ók honum út úr dalnum og í bílskúr í borginni þar sem Jagúarinn var þveginn hátt og lágt. Að morgni þjóðhátíðardagsins, 17.júní var svo farið í hátíðarrúnt sem hófst í Hafnarfirði þar sem Jagúarinn og aðrir fornbílar fóru á undan skrúðgöngu sem hófst við Flensborgarskólann og lauk við Hafnarborg.  Þar voru bílarnir til sýnis en að því loknu ók fornbílalestin í Árbæjarsafn þar sem boðið var uppá kaffi fyrir félaga Fornbílaklúbbsins.  Bæjarferðinni lauk síðdegis á þjóðhátíðardegi Íslendinga.  Jagúarinn er kominn heim, á planið fyrir framan hús skáldsins, hreinn og strokinn.