„Ísland farsældar frón” á íslenska safnadaginn

06/07 2011

Þórarinn Stefánsson, píanó

Sunnudaginn 10. júlí næstkomandi er íslenski safnadagurinn og ókeypis aðgangur er að Gljúfrasteini allan daginn.

Þann dag mun Þórarinn Stefánsson píanóleikari koma fram á stofutónleikum á Gljúfrasteini kl. 16.   Á efnisskrá tónleikanna eru íslensk þjóðlög í ólíkri meðhöndum íslenskra tónskálda. Efnisskráin spannar stórt tímabil í íslenskri tónlistarsögu og er elsta verkið frá byrjun 20. aldar eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson en þau yngstu samin árið 2009. Aðgangur er ókeypis.

 

Þórarinn Stefánsson lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987 undir handleiðslu Halldórs Haraldssonar. Hann stundaði framhaldsnám í Hannover í Þýskalandi hjá prof. Eriku Haase en hefur auk þess sótt einkatíma og námskeið hjá Colette Zérah, Edith Picht-Axenfeld og Vlado Perlemuter. Að námi loknu bjó Þórarinn og starfaði um nokkurra ára skeið í Þýskalandi og Danmörku.

Þórarinn hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu sem einleikari og meðleikari með söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk þess að hafa skipulagt fjölda tónleika, meðal annars í Þýskalandi, Danmörku, Grænlandi og Færeyjum. Samhliða eigin tónleikahaldi og kennslu er hann nú listrænn stjórnandi tónlistardagskrár Tónlistarhússins Laugarborgar í Eyjafjarðarsveit og hefur gegnt því starfi frá árinu 2004.

Þórarinn hefur gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2007 hlaut Þórarinn starfslaun listamanna.

 

Á Gljúfrasteini er opið alla daga í sumar frá kl. 9–17.

Dagskrá stofutónleika á Gljúfrasteini má finna hér.