Hvað veist þú um lopapeysuna?

16/09 2014

Auður Sveinsdóttir situr við píanóið heima á Gljúfrasteini í handprjónaðri peysu.

Málþing um íslensku lopapeysuna verður haldið í Bókasafni Mosfellsbæjar laugardaginn 20. september frá kl. 14:00 -16:00

Ásdís Jóelsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands mun halda inngangserindi og greina frá rannsóknarverkefni sínu um uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð.

Lopapeysuverkefnið sem er samstarfsverkefni þriggja safna; Hönnunarsafns Íslands, Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Gljúfrasteins.  Talsvert hefur verið ritað um lopapeysuna bæði í bókum, greinum og ritgerðum. Tilgangurinn með málþinginu er að kalla eftir upplýsingum frá almenningi. Það væri gagnlegt að fá að sjá peysur, munstur, greinar og nöfn prjónakvenna. Gestir sem koma á málþingið eru hvattir til að koma með upplýsingar, ljósmyndir, peysur og annað fróðlegt sem gæti gagnast rannsóknarverkefninu.

Þeim sem ekki komast á málþingið er bent á að hægt er að hafa samband við Ásdísi Jóelsdóttur í síma 847 8760 eða senda upplýsingar á netfang hennar ajoels@ismennt.is.