Heimsókn úr rússneska sendiráðinu og spennandi sýning í haust

22/06 2017

Áhorfendur hlýða á söng Pavels Lisitsjans í stofunni á Gljúfrasteini í maí 1953.

Anton V. Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi þáði heimboð að Gljúfrasteini og heimsótti  hann safnið í gær ásamt föruneyti úr sendiráðinu. Tilefni heimboðsins var að kynna verkefni sem starfsmenn safnsins vinna að þessi dægrin.

 

Verkefnið sem um ræðir er sýning um tónleikahald að Gljúfrasteini á 5. og 6. áratug síðustu aldar sem safnið mun hleypa af stokkunum í Listasal Mosfellsbæjar næstkomandi september. Framundan eru því spennandi tímar við víðfeðmt grúsk og annan undirbúning fyrir sýninguna.

 

Sýndir verða gripir, eins og t.d. hljómplötur, tónleikadagskrár, nótnabækur og ljósmyndir svo eitthvað sé nefnt, en allir tengjast þeir stofutónleikunum víðkunnu á einn eða annan hátt. Gripirnir verða ennfremur settir í samhengi við tíðarandann, en ekki síður þá heimsþekktu tónlistarmenn sem léku fyrir gestum í húsi skáldsins.

 

Halldór Laxness gegndi formennsku í MÍR, félagi um menningartengsl milli Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, um miðbik síðustu aldar og einmitt þess vegna voru margir þeirra tónlistarmanna sem léku á Gljúfrasteini úr austri. Meðal þeirra nafntoguðustu sem héldu tónleika í stofu skáldsins og munu koma við sögu á sýningunni eru svo dæmi séu tekin þeir Mstislav Rostropovits sellóleikari og Aram Khatsatúrjan tónskáld.

 

Nú þegar hafa verið skráðar inn á menningarsögulega gagnasafnið Sarp allnokkrar ljósmyndir frá tímabilinu sem sýningin kemur til með að spanna. Áhugasamir geta smellt hér til þess að líta á þær.