Halldór Laxness les fyrir þjóðina

01/12 2020

Allir upplestrar Halldórs Laxness sem varðveittir eru í safni RÚV hafa nú verið gerðir aðgengilegir í spilara RÚV á netinu. Tilefnið er 90 ára afmæli RÚV sem hóf útsendingar 20. desember árið 1930. Ákveðið var að færa þjóðinni lestra Halldórs Laxness að gjöf í samstarfi við dætur hans þær Guðnýju og Sigríði Halldórsdætur. Þetta þykja afar ánægjuleg tíðindi og ljóst að gjöfin mun gleðja hlustendur.  
Guðný Halldórsdóttir sagði í sjónvarpsfréttum, að þeim systrum væri vel við Ríkisútvarpið og þar hefðu upplestrarnir verið varðveittir vel. ,,Okkur finnst það skipta meira máli að gefa þetta áfram heldur en að taka við einhverjum tíköllum fyrir upplesturinn” sagði Guðný í sjónvarpsfréttum RÚV. Fréttina má sjá hér.

Meðal bóka sem nú er hægt að hlusta á nóbelskáldið lesa í spilara RÚV eru Gerpla, Brekkukotsannáll, Í túninu heima, Paradísarheimt, Kristnihald undir Jökli, Atómstöðin, Innansveitarkronika og grein Halldórs Hernaðurinn gegn landinu. Einnig má hlýða á Halldór lesa eigin ljóð og ljóðaþýðingar, Passíusálmana og Birtíng eftir Voltaire í þýðingu skáldsins.
Halldór Guðmundsson, sem skrifaði ævisögu skáldsins árið 2004 hefur gert þátt um samskipti Halldórs Laxness og Ríkisútvarpsins, hlýða má á þáttinn hér.