Gljúfrasteinn - hús skáldsins í 15 ár

04/09 2019

Gljúfrasteinn

Í dag eru 15 ár síðan safnið á Gljúfrasteini var opnað við hátíðlega athöfn í húsinu laugardaginn 4. september árið 2004.  Auður Laxness var meðal þeirra sem ávarpaði gesti við opnunina.  Hún sagði að nú ætti þjóðin húsið og hún væri því sjálf í hópi annarra gesta á sínu gamla heimili og óskaði safninu velfarnaðar um ókomna tíð.  Auður hafði flutt frá Gljúfrasteini haustið 2002, tæplega fjórum árum eftir að Halldór Laxness dó en þau bjuggu þar saman í hálfa öld, fluttu inn á aðfangadag árið 1945.  Á opnunarhátíðinni sagði Þórarinn Eldjárn rithöfundur frá því þegar Halldór og Auður festu kaup á húsinu. Þórarinn var þá formaður stjórnar Gljúfrasteins.   

„Á eins árs afmæli lýðveldisins Ísland 17. júní 1945 sat ung kona, starfsmaður röntgendeildar Landspítalans, í góðu veðri úti á svölum spítalans og vélritaði samning um byggingu húss á Gljúfrasteini, Mosfellssveit, samkvæmt teikningu Ágústs Pálssonar arkitekts. Fáum dögum síðar hófst vinna á staðnum. Framkvæmdastjóri og byggingastjóri frá upphafi var þessi unga kona, Auður Sveinsdóttir. Húsbyggjandinn, unnusti hennar Halldór Laxness, hafði sagt við hana: ,,Þú skalt ráða framkvæmdum. Ég get ekkert nema opnað budduna.“ Hálfu ári síðar, um jólin 1945, gengu þau Auður og Halldór í hjónaband og settust um leið að í nýja húsinu. Þar með hófst sagan sem gerði Gljúfrastein í einni svipan að einhverri helstu kraftstöð íslenskrar menningar og lista. Í dag hefst nýr kafli í þeirri sögu.““  


Nú eru 15 ár frá því að byrjað var að skrifa nýja kaflann í sögu Gljúfrasteins og hann er skreyttur mörgum góðum og skemmtilegum sögum sem verða til á degi hverjum og oftast eru það gestir safnsins sem halda sögunni lifandi. Fjölmargir gestir erlendir og innlendir heimsækja safnið ár hvert,  bæði stórir hópar, minni hópar og einstaklingar sem sumir ferðast um langan veg til að sjá heimili Nóbelsskáldsins í Mosfellsdal. Auk þess kemur mikill fjöldi barna og ungmenna í skólaferðir í dalinn til að fá fræðslu um safnið og verk Halldórs. Gljúfrasteinn er lifandi safn sem stendur vörð um lífsstarf Halldórs Kiljan Laxness.
  
Til hamingju með daginn.