Forseti Íslands heimsótti Gljúfrastein

10/08 2017

Forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid ásamt fylgdarliði forsetaembættis Íslands, bæjarstjórn Mosfellsbæjar og stjórn Gljúfrasteins heimsóttu safnið í gær, miðvikudaginn 9. ágúst. Heimsóknin var liður í opinberri heimsókn forseta um Mosfellsbæ og nágrenni í tilefni af 30 ára afmæli Mosfellsbæjar sem kaupstaðar.

Guðný Dóra Gestsdóttir forstöðumaður safnsins tók á móti forsetahjónunum og öðrum gestum, sagði stuttlega frá starfsemi safnsins og hvað væri á döfinni áður en hún gaf Rannveigu (Göggu) Jónsdóttur, dóttur Sigríðar Halldórsdóttur, orðið.  Gagga minntist æskuára sinna í dalnum og bænum með glaðbeittum hætti og leiddi hugann að því hve furðu margt hefur breyst á eins skömmum tíma.

Forsetinn þakkaði fyrir móttökuna og færði safninu innrammaða mynd af Halldóri Laxness í líflegum kankvíslegum samræðum við Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar þegar Svíinn heimsótti hjónin á Gljúfrasteini árið 1984.
Gestir þáðu loks kaffi og konfekt, og leiddi Guðný Dóra forsetahjónin um húsið áður en hópurinn hélt aftur leiðar sinnar um nágrennið og á næsta áfangastað.