Fæðingardagur skáldsins og dagur bókarinnar

23/04 2021

Auður Laxness og Halldór Laxness í vinnuherbergi Halldórs á Gljúfrasteini

Í dag, 23. apríl eru liðin 119 ár frá fæðingu Halldórs Laxness. Halldórs fæddist árið 1902 í Reykjavík. Hann segir svo frá fæðingu sinni í bókinni Í túninu heima sem kom út árið 1975: 
,,Fróðir menn segja mér að ég muni ekki hafa fæðst í timburhúsinu uppí lóðinni á Laugavegi 32 þar sem stelpan misti mig útum gluggann, heldur muni það hafa gerst í steinbænum fast við götuna þar sem kötturinn stökk uppí vögguna til að læsa klónum í andlitið á barninu meðan það svaf; og var heingdur fyrir vikið. Af öðrum frægðarverkum frá þessum tímum vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að minnast þess að daginn sem ég fæddist sprændi ég beint uppí andlitið á ljósu minni Þorbjörgu Sveinsdóttur sem þá var mestur kvenskörúngur á Íslandi. Konunni varð þó ekki meira um en svo að hún sagði brosandi: Hann verður sómamaður í sinni sveit." 
Halldór ólst upp í Mosfellsdal og í ævisögu skáldsins sem Halldór Guðmundsson skrifaði og kom út árið 2004 segir að Halldór Laxness hafi verið sérsinna barn sem leiddust sveitaverkin en að hann hafi helst notið sín einn við lestur og skriftir. Hugðarefni hans hafi verið önnur en annarra á heimilinu. Þannig lýsir Halldór þessum tíma í minningasögunni Heiman ég fór sem kom út árið 1952, þegar Halldór var fimmtugur: ,,Sennilega hefur foreldrum mínum veist erfitt að skilja mig þó þau hefðu á því fullan vilja. Lestrarfýsn mín benti til þess að ég væri ekki með öllu venjulegur letíngi, því væri þess kostur sat ég fullur elju yfir bókum frá morgni til kvölds og gáði einskis. Þegar útséð þótti, að ég mundi ekki ,,hneigjast að sveitarstörfum", var mér ekki framar haldið að neinni líkamlegri vinnu, og má ég þess æ með þökk minnast að foreldrar mínir skuli hafa auðsýnt mér þann skilníng að láta mig ekki slíta barnsskóm mínum í auðvirðilegum þrældómi." 
Fyrsta skáldsaga Halldórs, Barn náttúrunnar kom út árið 1919 þegar hann var sautján ára. Halldór sendi frá sér á sjöunda tug bóka en þess ber að geta að sumar skáldsögurnar voru síðar felldar í eina bók. Ritsafn hans hefur því að geyma fimmtíu og eina bók.  Halldór Laxness lést 8. febrúar árið 1998 á 96. aldursári.   

Í dag á fæðingardegi skáldsins er einnig alþjóðlegur dagur bókarinnar en það var Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem skipulagði fyrsta dag bókarinnar fyrir 26 árum. Markmiðið er að hvetja ungt fólk til yndislesturs. Þessi dagur hefur reyndar verið haldinn hátíðlegur í Katalóníu frá árinu 1463 en þá gefa karlar konum sínum rósir og fá í staðinn bækur frá þeim. Dagurinn er ennfremur dánardagur skáldanna Miguel de Cervantes (1547-1616) og Williams Shakespeare (1564-1616). 

Listaverkasafn Gljúfrasteins á netinu og orðatré í garðinum

Í fyrra var ákveðið að heiðra minningu Halldórs með því að gera allt listasafnið á Gljúfrasteini aðgengilegt almenningi í hinu menningarsögulega gagnasafni sem kallast Sarpur en þar eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, þjóðhætti og fleira. Gott er að afmarka leitina með því að velja Gljúfrastein og slá svo til dæmis inn leitarorðið ,,borðstofa" og þá koma fram allir skráðir gripir fram sem þar er að finna.
Heimili Halldórs Laxness og Auðar Laxness á Gljúfrasteini var rómað fyrir smekkvísi og listfengi þeirra hjóna. Um þessar mundir er safnið lokað vegna samkomubanns en hægt er að skoða það í þrívídd á netinu. 

Orðatré í garðinum á Gljúfrasteini 

Þá verður minning skáldsins einnig heiðruð og sumarkomu fagnað með því að bjóða fólki að lesa valdar tilvitnanir úr verkum hans sem festar verða á tré í garðinum við Gljúfrastein. Orðatré skáldsins mun vonandi gleðja fólk sem er á ferð um svæðið sem er vinsælt til útivistar enda margar fallegar náttúruperlur í nágrenninu og nægir að nefna Helgufoss. Hér má skoða kort af svæðinu. 

Til hamingju með dag bókarinnar og gleðilegt sumar.